AUGNABLIK

Um Hinsegin kórinn

Hinsegin kórinn var stofnaður síðsumars 2011 og hefur frá þeim tíma vaxið og dafnað.

Markmið kórsins er að vera fordómalaus vettvangur fólks til að hittast og njóta söngs saman; vinna að þátttöku hinsegin fólks í menningarlífinu; vera jákvæð fyrirmynd og stuðla að sýnileika hinsegin fólks. Kórinn æfir á mánudagskvöldum í húsnæði Samtakanna ’78. Hinsegin kórinn mismunar hvorki á grundvelli kynhneigðar né kynvitundar og er öllum opinn að undangengnum raddprófum sem að jafnaði eru haldin við upphaf haust- og vorannar.

Hinsegin kórinn leggur áherslu á fjölbreytt lagaval og líflega framkomu, en frá stofnun hefur kórinn haldið fjölmarga sjálfstæða tónleika en auk þess komið fram á ýmsum viðburðum. Þar má nefna opnunarhátíðir Hinsegin daga í Reykjavík og Faroe Pride í Þórshöfn í Færeyjum auk þess að koma fram í afmælum, á vinnustaðaskemmtunum og víðar. Í júní 2014 tók kórinn þátt í Various Voices, alþjóðlegu kóramóti hinsegin kóra í Dublin á Írlandi, en kórinn hefur sett sér það viðmið að syngja utan landssteinanna að lágmarki annað hvert ár. Sumarið 2015 fór kórinn til London og söng sem gestakór á tónleikum Pink Singers, hinsegin vinakórs í London. Kórinn stefnir á norrænt kóramót í Helsinki í september 2017, og svo aftur á Various Voices kóramótið, sem verður í Munchen Þýskalandi vorið 2018.

Sópran
Sópran er efsta rödd kórsins sem syngur þar af leiðandi alla háu tónana.

Veist þú hvað þarf margar sóprönur til að skipta um ljósaperu? Tvær. Önnur heldur á diet-kókinu meðan hin biður meðleikarann um að skipta um peruna.
Alt
Alt er efri millirödd í kór, hún syngur því hærra en tenór en ekki jafn hátt og sópran.

Veist þú hvað þarf margar altir til að skipta um ljósaperu? Enga, þær komast ekki nógu hátt.
Tenór
Tenór er neðri millirödd. Tenórar syngja því á milli alt og bassa.

Veist þú hvað þarf marga tenóra til skipta um ljósaperu? Sex, einn til að skipta um peruna á meðan hinir fimm kvarta undan því hve hátt þurfi að fara.
Bassi
Bassi er neðsta rödd kórsins og passar að neðstu tónarnir komist til skila.

Veistu hvað þarf marga bassa til að skipta um ljósaperu? Engann, þeir eru svo mikil hörkutól að þeir vilja frekar ganga um í myrkrinu.

Vertu með!

Við í Hinsegin kórnum erum alltaf að leita að fleiri vinum – hvort sem það eru vinir sem vilja syngja með okkur eða hlusta á okkur.

Þú getur fyllt út formið hér að neðan og fengið upplýsingar um næstu raddpróf eða tónleika.

Stjórn

Stjórn Hinsegin kórsins

Meðleikari

Meðleikari Hinsegin kórsins er Halldór Smárason. Halldór hefur spilað með kórnum frá haustönn 2016.

Kórstjóri

Helga Margrét Marzellíusardóttir hefur stjórnað Hinsegin kórnum frá því haustið 2011.

Helga Margrét er fædd og uppalin á Ísafirði og hlaut mikið tónlistaruppeldi. Hún hóf tónlistarnám sitt við Tónlistarskólann á Ísafirði fimm ára gömul og nam píanóleik hjá Sigríði Ragnarsdóttur, skólastjóra Tónlistarskólans. Helga Margrét hóf söngnám samhliða píanónáminu og lauk framhaldsprófi í söng árið 2009, söngkennari hennar var Ingunn Ósk Sturludóttir. Kennari Helgu Margrétar í bóklegum greinum við Tónlistarskólann á Ísafirði var Jónas Tómasson, tónskáld.

Vorið 2013 lauk Helga Margrét Bachelornámi sínu við Listaháskóla Íslands en þar nam hún söng hjá Elísabetur Erlingsdóttur og kórstjórn hjá Gunnsteini Ólafssyni. Hún hefur sungið í fjölmörgum kórum og sönghópum, sótt masterklassa hjá fjölda innlendra og erlendra söngkennara, hljómsveitarstjóra og kórstjóra. Helga Margrét hefur starfað við tónlistarkennslu í Tónlistarskólanum á Ísafirði og stjórnað skólakórum Hvassaleitis– og Álftamýrarskóla. Helga stjórnar einnig Skólakór Verzlunarskóla Íslands og sá um söngkennslu og útsetningar fyrir leiksýningarnar We will rock you og Með allt á hreinu.

Tölvupósturinn hennar Helgu er korstjori@hinseginkorinn.is

Bókaðu okkur

Við í Hinsegin kórnum tökum að okkur að koma fram á allskonar uppákomum, til dæmis árshátíðum, brúðkaupum, afmælum og svo framvegis! Endilega fylltu út formið hér að neðan ef þú vilt fá skemmtilegan kór á viðburðinn þinn.